Svar frá Símanum vegna hugleiðinga um fjarskiptamál

Eins og margir sáu þá voru settar hér fram hugleiðingar um daginn um lélega þjónustu Símans á Borgarfirði. Við sendum þessar hugleiðingar á þjónustufulltrúa Símans fyrir rúmum mánuði og buðum fyrirtækinu það að senda okkur þeirra svör við þessu til þess að birta á vefnum.
Í seinustu hreppsfundargerð Borgarfjarðarhrepps kemur fram að sveitarfélagið og Síminn ætli að setjast niður og fara yfir stöðuna og því ber að fagna, og leyfum við okkur að vona að gott komi út úr þeim viðræðum. Annars er það nokkuð ljóst á fréttaflutningi að undanförnu að við erum langt í frá eina sveitarfélagið sem býr við þessa stöðu, og óánægja víða.

Hérna fyrir neðan er svarið frá Símanum:

Okkur hjá Símanum þykir vænt um að Borgfirðingar hugsi fyrst til okkar þegar kemur að því að bæta fjarskiptaþjónustu, eins og sést hér á vefnum ykkar. Við hjá Símanum gerum okkur fulla grein fyrir því að fjarskipti auðga líf fólks.

Starfsmenn tæknisviðs Símans hafa farið yfir erindi sem borist hafa frá íbúum Borgarfjarðar eystri og vinna nú að greiningu á svæðinu. Leiði greiningin í ljós að úrbóta sé þörf á línum og búnaði verður brugðist við því.

Síminn vinnur með það að leiðarljósi að byggja upp fjarskipti með hagkvæmum hætti um allt land. Það felur í sér að þéttbýlir staðir fá almennt þjónustu á undan strjálbýlum, og/eða fámennum stöðum.  Ljóst er þó að fjöldi íbúa ræður því ekki eingöngu hvar ráðist er í uppfærslu á kerfum hverju sinni. Þannig stóðu til dæmis Súðvíkingar og Síminn sameiginlega að því að uppfæra kerfið þar á dögunum.

Eins og fram hefur komið var ljósleiðari lagður á Borgarfjörð. Hann kom í stað eldri búnaðar sem hafði minni gæði og meiri truflanir. Ráðstöfunin var gerð til að auka uppitíma til framtíðar og til að lækka rekstrarkostnað. Stofnkostnaður við það að bjóða fjölbreyttari þjónustu, sem krefst stærri símstöðvar og nýs endabúnaðar, hleypur á milljónum króna. Að auki hækkar mánaðarlegur rekstrarskostnaður um hundruð þúsunda króna. Það er kostnaður sem Síminn getur ekki tekið óskiptan á sig og hefur ríkan skilning á að fámennt sveitarfélag hefur kannski ekki bolmagn til að stíga þar inn. 

Þróun fjarskiptatækninnar er hins vegar afar hröð og staðan getur því fljótt breyst. Síminn hefur aukið verulega við þjónustuframboð sitt jafnt og þétt á landsbyggðinni. Stefna hans er að halda því áfram.

Næsta skref varðandi Borgarfjörð eystri er að starfsmenn Símans munu setja sig í samband við forsvarsmenn sveitarfélagsins og  eftir að greiningu lýkur munum við fara yfir stöðuna og möguleikana. Finnist ásættanleg lausn, stendur ekki á Símanum að bæta Borgarfirði eystri á lista þeirra sveitarfélaga sem áhuga hafa á uppfærslu á búnaði. Við viljum þó forðast að byggja upp væntingar eins og staðan er.  

Varðandi Bræðsluna þá er Síminn opin fyrir viðræðum um aðkomu sína að henni, enda frábær tónlistarhátíð sem hefur fest sig í sessi. Þegar hefur verið ákveðið að Bræðslugestir njóti 3G. Síminn stefnir á að vera með stöð á staðnum.

Hvað öryggi á sjó varðar hefur Síminn í meiri en áratug boðið sjómönnum traust samband í gegnum gervihnattasíma; Iridium, ásamt öðrum sérlausnum fyrir sjávarútvegsfyrirtæki. Gervihnattasímarnir henta vel þeim sem þurfa að auka öryggi sitt, hvort sem er á landi eða sjó. Sjá verð: http://www.siminn.is/fyrirtaeki/farsimi/verd/nanar/item31561/

Að lokum bendir Síminn á að við sölu hans stofnaði ríkið Fjarskiptasjóð og lagði hluta af söluandvirðinu í hann. Var það gert svo hægt væri að ráðast í framþróun fjarskipta við brostnar markaðsforsendur. Sjóðnum er ætlað að starfa til ársins 2016. Öflugur fjarskiptasjóður gæti leyst vanda Borgfirðinga og annarra í sömu stöðu. Allar nánari upplýsingar um starfsemi sjóðsins má finna hér: www.fjarskiptasjodur.is

Virðingarfyllst,

Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir

Upplýsingafulltrúi Símans