Umsókn um Grænfána

Umhverfissáttmálinn
Umhverfissáttmálinn
Í síðustu viku endurnýjuðum við umsókn okkar um Grænfánann og getum átt von á heimsókn frá landvernd til að taka út skólann í maí. Með umsókninni þurfti að fylgja greinargerð um hvaða markmiðum við höfum verið að vinna að s.l. tvö ár eða frá því að við fengum fánann í desember 2010.


Greinargerð með nýjum og endurskoðuðum  markmiðum:

 

1.  Áframhaldandi vinna með moltugerð og matjurtagarð.

Við höfum unnið að því að útbúa okkur moltu í þar til  gerðri tunnu sem er staðsett í matjurtagarðinum okkar. Þessa moltu notum við síðan til að bæta moldina í garðinum og fá betri uppskeru úr honum en þar  ræktum við m.a. kartöflur.

 2. Flokkun á rusli.

Við flokkum rusl í skólanum í sérstök ílát sem farið er síðan með niður á Heiði sem er flokkunarstöðin  í sveitarfélaginu.  

3. Áframhaldandi vinna með orku-  pappírssparnað og endurnýtingu.

Við spörum pappír með því að ljósrita báðum megin á blöðin. Við sendum rafræn skilaboð og notum heimasíðu skólans www.borgarfjordureystri.is/grunnskoli fyrir tilkynningar og fréttir.

 Við spörum orku með því að slökkva ljósin eftir að birtir á daginn, draga gluggatjöldin fyrir á kvöldin til að hindra hitatap og hafa glugga ekki opna að óþörfu.
Við endurnýtum eins og við getum t.d., í mynd og handmennt ganga gamlir og þreyttir hlutir í endurnýjun lífdaga eða jafnvel fá nýtt hlutverk.

4. Gróðursetja tré í nágrenni skólans.

Á hverju vori gróðursetjum við tré við Álfaborg. Gefum eldri plöntum áburð og reitum frá þeim.

5. Stuðla að bættri lýðheilsu með hreyfingu og hollu matarræði.

Við leggjum áherslu á styttri og lengri gönguferðir með alla nemendur skólans. T.d. er á hverju hausti farið í langa gönguferð sem tekur allan daginn og stundum gist í skálum. Á hverju ári er Borgarfjarðarhreysti þar sem nemendur, foreldrar og kennarar etja kappi saman í óhefðbundnum íþróttum. Einnig tökum við þátt í verkefninu göngum í skólann og norræna skólahlaupinu svo eitthvað sé nefnt. Við hvetjum nemendur til að borða  hollan mat og er boðið upp á ávexti í nestistímum og hollan mat í skólamötuneytinu.

6. Fuglar laðaðir að skólalóðinni með því að gefa þeim í vetrarhörkum og útbúa fyrir þá
fuglahús.

Í handmennt voru búin til fluglahús sem fest voru á girðingu. Þar er hægt að gefa fuglunum korn, brauðafganga og eplaúrgang.

7. Kynna stefnu skólans út á við og vera dugleg að fræða nemendur og foreldra um  
    umhverfisvernd.
    Setja inn á vef skólans stefnu skólans, fréttir og kynningarefni. Kynna fyrir nemendum og 
    foreldrum umhverfissáttmálann okkar og niðurstöður úr umhverfisgátlista.