Af opnu húsi og valviku

Í upphafi settu nemendur sér markmið
Í upphafi settu nemendur sér markmið
Í síðustu viku var opið hús hjá okkur í skólanum. Tilefni þessa var að nemendur höfðu þá nýlokið valvikunni, eða tuttugu kennslustundum í valgrein. Með því að opna skólann og halda sýningu á afrakstri valvikunnar og við að nemendur kynntu námskeiðin tókum við um leið þátt í verkefninu "List án landamæra" þennan dag. Það má með sanni segja að listirnar hafi verið landamæralausar í skólanum í valvikunni. Yngri deild fékk námskeið í sjálfsvarnaríþróttinni taekwondo, en Gauti Már taekwondomeistari úr Fellabæ leiðbeindi þeim. Dagana á undan höfðu þau verið á mósaíknámskeiði, í smíðasmiðju, á leikjadegi og sambræðingi myndlistar, tón- og leiklistar undir handleiðslu kennaranna sinna. Öll þessi námskeið gáfu af sér fallega hluti og fjölbreytt nám. Það er gaman að segja frá því að leikskólinn brá sér líka í smiðju þessa daga og vann skemmtileg listaverk út frá svarta litnum.

Eldri nemendur völdu sér öll matargerð í vali. Daglega göldruðu þau fram gómsæta rétti, alla vikuna, meðal annars rétti sem við hin fengum sem meðlæti í hádegismatnum. Þau útbjuggu einnig þær veitingar sem boðið var uppá á Opna húsinu.

Foreldrar kíktu við á opna húsinu og einnig litu fréttamenn frá N4 og Austurglugganum við, tóku viðtöl við nemendur og fleiri.

Valvika er liður í að hafa kennsluhætti hér við skólann fjölbreytta og framkvæmdin þáttur í að auka á nemendalýðræði og sjálfstæði nemenda, virkja þau út frá áhugasviði þeirra og styrkleikum. 
Í ferlinu við að koma sér saman um valgreinar og velja fög kom í ljós hvaða aðrar greinar nemendur myndu kjósa að nema og nú er það verk kennara og skólastjórnanda að gera það sem hægt er til að koma til móts við slíkar óskir á næsta skólaári. Til dæmis kom í ljós áhugi á kvikmyndagerð, skyndihjálparnámskeiði og fleiri spenanndi valgreinum.

En nóg um það hér má sjá myndir