Áhöfnin á Húna á Borgarfirði núna á fimmtudaginn

Áhöfnin á Húna verður með tónleika á Borgarfirði núna á fimmtudaginn og er mikil eftirvænting í firðinum fyrir komu þessara snillinga. Við vonum að sem flestir láti sjá sig og bjóði þau hjartanlega velkomin og styrki í leiðinni slysavarnarasveitina okkar. Að loknum tónleikum verður svo rífandi stemning í Fjarðarborg eitthvað fram eftir kvöldi þar sem Magni & the Hafthors ætla að telja í nokkru vel valin lög.

Áhöfnin er hljómsveit skipuð tónlistarmönnunum Jónasi Sig, Láru Rúnars, Mugison, Ómari Guðjónssyni, Guðna Finnssyni og Arnari Gíslasyni. 

Hugmyndin um að sigla hringinn í sumar og halda tónleika í sjávarbyggðum kviknaði í vetur í samtölum tónlistarmannanna og Jóns Þórs Þorleifssonar. Strax var ákveðið láta gott af sér leiða í ferðinni og var Slysavarnarfélaginu Landsbjörg boðið að selja inn á tónleikana og safna peningum í starfsemi sína.

RÚV hefur ákveðið að fylgja túrnum eftir með sjónvarps og útvarpsþáttagerð í allt sumar. Gerðir verða 6 tuttugu mínútna sjónvarpsþættir þar sem fylgst verður með ævintýrum áhafnarinnar á leiðinni. Sá fyrsti fer í loftið 28. júní. Að auki verða 3 beinar útsendingar frá Reyðarfirði, Stykkishólmi og Akureyri. Það verða klukkutíma langir skemmtiþættir. Það eru Margrét Blöndal og Felix Bergsson sem leiða það verkefni. 

Húni II er 50 ára gamall eikarbátur, smíðaður í skipasmíðastöð KEA á Akureyri. Margir þekkja þennan fallega bát sem gjarnan liggur við Torfunesbryggju í miðbæ Akureyrar. Hann hefur aldrei áður gegnt hlutverki rokkbáts.