Álfabúningar hannaðir og saumaðir á Borgarfirði

Ungt álfapar í Álfaborginni
Ungt álfapar í Álfaborginni
Ævintýralandið á Borgarfirði eystri í samtarfi við Austfirska karnivalhópinn og Þorpið hafa hannað og saumað nýja álfabúninga sem varðveittir verða og nýttir í Ævintýralandinu fyrir börn sem vilja hverfa á vit ævintýranna í höfuðborg álfadrottningar Íslands.  Verið er að skoða möguleika á framleiðslu og sölu á hluta af búningunum þannig að fólk geti tekið með sér minjagrip heim úr Álfalandi. Um verslunarmannahelgina voru búningarnir frumsýndir við Álfaborgina og teknir í notkun við góðar undirtektir hugmyndaríkra gesta  Ævintýralands. Verkefnið er styrkt af Menningarráði Austurlands og er unnið í framhaldi af hugmyndum sem spruttu upp um Austfirskt karnival í tengslum við heimsókn írska karnivalhópsins sem kom á Ormsteiti árið 2008. 

Ákveðið var að byggja upp smátt og smátt búningaflóru sem tengjast menningu byggðalaga á nokkrum stöðum á Austurlandi. Árið 2009 voru saumaðir búningar og uppblásnar skreytingar undir stjórn Íranna Mandy Blincho og Mark Hill og hafa þeir búningar nú verið notaðir tvisvar sinnum á Ormsteiti.  Sótt var um til Menningarráðs Austurlands árið 2010 að hanna og sauma búninga í tengslum við álfamenningu á Borgarfirði og stefnt er að því að sækja um styrk á næsta ári til að stækka búningasafnið og gera að stóru austfirsku karnivali á einhverri hátíðinniá næstu árum.

Álfabúningarnir eru hannaðir af Ríkeyju Kristjánsdóttur textílhönnuði í samvinnu við Bryndísi Snjólfsdóttur forstöðumanns Ævintýralandsins og Láru Vilbergsdóttur verkefnisstjóra í Þorpinu. Borgarfjarðarkonurnar Freyja Jónsdóttir , Björg Aðalsteinsdóttir og Kristín Eyjólfsdóttir tóku einnig þátt í að gera þessa hugmynd að veruleika með myndarleik sínum.Þá styrktu Borgarfjarðarhreppur, UMFB og Minningasjóður Helga M. Arngrímssonar verkefnið með fjárframlagi.

Myndir af öllum búningunum má sjá með því að smella hérna.