Allir þéttbýlisstaðir á Austurlandi fá ljósnet Símans... nema Borgarfjörður

Í ljósi umræðna sem fóru fram hérna á vefnum fyrir áramótin um fjarskiptamál, bárust frekar ömurlegar fréttir fyrir okkur Borgfirðinga nú fyrir nokkrum dögum , en þar var sagt frá því að Síminn ætli að setja upp ljósnet Símans í öllum þéttbýliskjörnum á Austurlandi, nema á Borgarfirði.Auðvitað samgleðjumst við nágrannasveitarfélögum okkar með þessi þjónustu sem þeir fá að njóta, en okkur finnst gjörsamlega framhjá okkur gengið þegar kemur að þessum málum. Hvað veldur því að EINN staður er skilinn eftir og hafður út í kuldanum?

Síminn segir í fréttatilkynningu sinni...
„Við vitum hve mikilvægt er fyrir sveitarfélög landsins að sitja ekki eftir á tækniöld, því fjarskipti skipa lykilsess í grósku samfélaga og farsæld fyrirtækja. Við gerum því okkar besta svo fjarskiptin stýri ekki byggðaþróuninni í landinu heldur skapi tækifæri fyrir landsmenn að hasla sér völl þar sem þeir vilja helst.“
Er Síminn með þessu að segja að við eigum okkur ekki framtíð?
Við erum líka þetta fólk sem þarf þessa þjónustu til að auka grósku og farsæld.

Þessi staða er til háborinnar skammar fyrir alla þá sem koma að þessu máli, hvort sem það eru stjórnvöld eða forsvarsmenn Símans. Með þessu móti er verið að mismuna byggðarlögum og þetta setur þau mun aftar þegar kemur að ásættanlegum búsetuskilyrðum, en staður eins og Borgarfjörður þarf virkilega á þessu að halda til þess að geta staðið í báráttunni um að fá nýja íbúa til staðarins og viðhalda byggð í framtíðinni. Þeir sem stjórna þessum málum verða að gera sér grein fyrir því valdi sem þeir hafa með dreifikerfinu þegar kemur að byggðamálum.

Það er með öllu óásættanleg ákvörðun að taka alla staði á Austurlandi inn í þessa þjónustu fyrir utan okkur og leyfi ég mér að fullyrða að við erum öll vonsvikin á Borgarfirði með þessa ákvörðun. Síminn kemur eflaust með einhver fín svör um að þetta sé á valdi stjórnmálamanna, og ef svo er þá er aldeilis kominn tími til þingmenn okkar standi upp og reyni að beita sér í þessum málum, og reyni loksins að fara að gera eitthvað fyrir okkur, en við eigum það til að gleymast. Með þessu er verið að koma fram við okkur sem annars flokks borgara.

Það búa kannski ekki margir á Borgarfirði, við gerum okkur alveg grein fyrir því, en munum það að Borgarfjörður er ekki bara dvalarstaður Borgfirðinga. Hingað koma um 15 þúsund ferðamenn á hverju ári og hefur Borgarfjörður verið að festa sig í sessi sem ákjósanlegur og aðlaðandi staður fyrir ferðamenn. Þessi staða heftir ferðaþjónustuaðila að veita ferðamönnum sömu þjónustu og á öðrum stöðum og skemmir fyrir uppbyggingu í þessum geira, en hann hefur verið mikil lyftistöng fyrir samfélagið undanfarin ár. Auk þess eru fjölmargir sem dvelja í sumarhúsum mánuðum saman og myndu þeir koma með að nýta sér þessa þjónustu, bæði til vinnu og afþreyingar.

Gaman væri að fá einhver svör frá Símanum eða einhverjum þingmanna okkar til að birta hérna á vefnum, og endilega sendið þessa frétt á þá sem gætu beitt sér í þessum málum.
Þetta er vægast sagt ömurleg staða sem vonandi verður leiðrétt!

(Þessi frétt er ekki rituð á vegum sveitarfélags eða ferðamálahópsins heldur undir eigin nafni).