Ástandið á Borgarfjarðarvegi er Austurlandi til skammar

Mynd: Eyþór Hannesson
Mynd: Eyþór Hannesson
Nú held ég að mælirinn sé orðinn algjörlega fullur hjá öllum Borgfirðingum. Það á ekki að koma á óvart að malarvegur fari svona þegar umferð um hann er orðin þetta mikil. Sumarumferð um Vatnsskarð er oftast nálægt 400 bílum á sólarhring og í kringum Bræðsluhátíðina margfaldast sú tala. Það virðist akkúrat ekkert vera horft á þessar tölur þegar verið er að áforma næstu framkvæmdir.

Staðreyndin er bara einfaldlega sú að umferðaþunginn um Vatnsskarð er orðinn það mikill að vegurinn ber hann engan vegin. Vegir þurfa að vera þannig byggðir að þeir þoli þessa álagspunkta. Í fyrra komu fögur fyrirheit um fjármagn í lögnu tímabærar framkvæmdir, en þær voru strikaðar út með einu pennastriki og það lítur ekki út fyrir að neinar framkvæmdir verði á næstunni.

Borgarfjörður er áberandi í öllu kynningarefni til ferðamanna um Austurland og þeir hvívetna hvattir til þess að heimsækja Borgarfjörð því hann sé ein mesta náttúruperla fjórðungsins. Það er því grátlegt að heyra af því að ferðamenn séu farnir að snúa við á leið sinni í fjörðinn, og að á samfélags- og ferðamiðlum sé orðið einna mest skrifað um ömurlegt ástand vegarins. Ferðaþjónustuaðilar hérna eru uggandi yfir þessari stöðu enda búið að eyða mikilli vinnu í að markaðssetja Borgarfjörð sem áfangastað.

En burtséð frá öllum ferðamönnum og ferðaþjónustu, þá er samfélag á Borgfirði sem þarf að sækja alla opinbera þjónustu um þennan veg til Egilsstaða og nágrannasveitarfélaga allan ársins hring. Staðreyndin er sú að við erum eini þéttbýliskjarni landsins sem er ekki með tengingu við næsta þjónustukjarna með bundnu slitlagi.

Ferðamálahópur Borgarfjarðar, sem á og rekur þennan vef, skorar á þingmenn kjördæmisins og samgönguráðherra að fara að gera eitthvað í þessum málum.

Þetta er ykkur öllum og Austurlandi til háborinnar skammar.