Borgarfjörður eystri - einn af gæðaáfangastöðum Evrópu

Hafþór Helgason undirritar aðild að EDEN fyrir hönd Borgarfjarðarhrepps og Ferðamálahóps Borgarfjarð…
Hafþór Helgason undirritar aðild að EDEN fyrir hönd Borgarfjarðarhrepps og Ferðamálahóps Borgarfjarðar í Brussel fyrir skömmu
Nú á dögunum var Borgarfirði eystri boðin aðild að evrópska EDEN-verkefninu, sem stendur fyrir „European Destination of Excellence“. Markmið verkefnisins er að vekja athygli á gæðum, fjölbreytileika og sameiginlegum einkennum Evrópskra áfangastaða og kynna til sögunnar nýja, lítt þekkta, áfangastaði vítt og breitt um Evrópu þar sem áhersla er lögð á ferðaþjónustu í anda sjálfbærni. Í fyrra unnu Ferðamálahópurinn og Borgarfjarðarhreppur í sameiningu að umsókn að þessu verkefni, en þema það árið var "Ferðaþjónusta og endurnýjun svæða". Stykkishólmur hlaut útnefningu fyrir Íslands hönd það árið og vorum við hérna nokkuð skúffuð yfir því, enda búið að leggja mikla vinnu í umsóknina, þýðingu hennar og annað. En svo í ljósi gæða umsóknar okkar og alls þess sem er búið að gera í ferðaþjónustu á Borgarfirði og á Víkum undanfarin ár var okkur nú fyrr á þessu ári boðin aðild að þessu verkefni sem er mikið fagnaðarefni fyrir okkar svæði.

Þetta er mikil viðurkenning á því mikla starfi sem búið er að vinna í Borgarfjarðarhreppi undanfarin ár og áratugi og þar spilar margt saman.Ferðamálahópurinn hefur lagt mikla vinnu í gönguleiðasvæðið á Víknaslóðum og markaðssetningu þess, Sveitarfélagið unnið uppbyggingu á tjaldsvæðis og markaðsetningu smábátahafnarinnar og svo hefur Ferðafélag Fljótsdalshéraðs unnið órtrúlega öflugt og óeigingjarnt starf á Víkum með byggingu gönguskálanna svo fátt eitt sé talið upp. Þess fyrir utan eru ferðaþjónustuaðilar innan fjarðar öflugir og hafa gjörbreytt ásýnd svæðisins á skömmum tíma.

Aðild að þessu samstarfi setur okkur ekki neinar skorður eða kvaðir. Meira má líta á þetta sem ákveðna viðurkenningu og hvatningu til áframhaldandi góðra verka og það sem er mikilvægast er að þetta gefur okkur aðild að öflugu samevrópsku tengslaneti ferðaþjónustunnar, og gefur okkur einnig leyfi til þessa að nota merki EDEN í allri okkar markaðssetningu sem er mjög sterkt.

Við getum því sagt stolt framvegis að Borgarfjörður eystri sé einn af gæðaáfangastöðum Evrópu. Það er bara einfaldlega staðreynd!


Aðild Borgarfjarðar eystri og annara nýrra gæðaáfangastaða var staðfest í Brussel nú fyrir tæpum mánuði síðan við hátíðlega athöfn á árlegum fundi EDEN verkefnisins. Myndin hér að neðan sýnir fulltrúa allra gæðaáfangastaða Evrópu saman komna. Önnur svæði á Íslandi sem hafa fengið aðild að EDEN eru Vestfirðir, Stykkishólmur og Húsavík.