Borgarfjörður sambandslaus við umheiminn í 18 klst

Skriðan við Sesseljuhamra
Skriðan við Sesseljuhamra
Nú á laugardaginn gerði mikið vatnsveður hérna á Borgarfirði með þeim afleiðingum að stór aurskriða hljóp af stað rétt innan við Sesseljuhamra milli Grundar og Hólalands. Skriðan tók í sundur ljósleiðaratenginguna við Borgarfjörð og varð því síma, net og sjónvarpslaust frá 18:00 á laugardaginn til kl 13:00 á sunnudaginn.

Þó það sé vissulega smá sjarmi í því að losna við áreiti umheimsins um stund, getur staða sem þessi verið grafalvarleg fyrir afskekkt bæjarfélag því ekki var hægt að hafa samband við neinn eða láta vita af neinu.

Starfsmenn Mílu voru strax ræstir út náðu að koma ljósleiðaranum í lag á góðum tíma við nokkuð erfiðar aðstæður. Skriðan var á að giska um 600 m löng og 150 m breið.

Myndirnar við þessa frétt tók æsifréttamaðurinn Hlynur Sveinsson og kunnum við honum bestu þakkir fyrir þessar myndir.