Bræðslan á nýju frímerki 2013

Þann 2. maí á komandi ári koma út 5 ný frímerki á Íslandi hjá Póstinum en þau eru tileinkuð fimm framúrskarandi íslenskum hátíðum. Þetta eru Þjóðhátíð í Eyjum, Fiskidagurinn mikli á Dalvík, Hinsegin dagar í Reykjavík, Aldrei fór ég suður á Ísafirði og síðan að sjálfsögðu Bræðslan á Borgarfirði eystri. Frímerkið er handteiknað og fangar vel þessa fallegu stemningu sem myndast í Bræðslunni, með Dyrfjöllin gnæfandi yfir í miðsumarssólinni. Við Borgfirðingar megum vera stollt af þessari viðurkenningu sem við fáum með þessu frímerki, því öll eigum við einhvern smá þátt í því að láta þessa hátíð ganga eins vel upp og raun ber vitni.