Breiðavíkurferð 28. - 29. ágúst 2013

Breiðavík
Breiðavík
Haustferðin okkar að þessu sinni tókst með miklum ágætum.   Við lögðum af stað frá skólanum kl. 8:00 á miðvikudagsmorgni með nesti og sumir á nýjum skóm. Stefnan var tekin á Breiðuvík sem er sunnan við Borgarfjörð. Veðrið lék við okkur og var oft stansað til að sulla í lækjum og pollum og tína ber en af þeim var nóg á leiðinni. Allir voru með malpoka og fengu sér bita af og til. Þegar að skálanum var komið var byrjað á að snæða, svo tók við verkefnavinna út í guðsgrænni náttúrunni, í bland við ærsl og leiki. Eftir kvöldmatinn var farið út á sand og hlaðinn bálköstur en á meðan við biðum eftir því að rökkrið færðist yfir lékum við okkur. Eftir kyrrðarstund við eldinn héldum við heim í skála en þar beið okkar kvöldkaffi að hætti Jóffu (skúffukaka og kleinur). Það voru þreytt, en södd og sæl börn sem lögðust til hvílu og voru þau fljót að hverfa inn í draumaheimana. Dagurinn var tekinn snemma  og eftir morgunmat og pökkun var lagt á Gagnheiði í annað sinn á tveimur dögum. Ekki var að sjá að þessi börn hefðu farið í 12 km langa fjallgöngu daginn áður og verið á hlaupum langt fram á kvöld. Þau sprettu úr spori og þokan sem læddist inn um morgunin hvarf þegar leið á daginn. Við komum síðan heim á Borgarfjörð um miðjan dag í glampandi sól, berjablá og útitekin eftir tvo frábæra daga og samtals 24 km göngu. Hér má sjá myndir úr ferðinni.