Eyfi og Jón Ólafs í Loðmundarfirði 31. ágúst

Það er okkur mikil ánægja að tilkynna núna um væntanlega listamenn sem koma fram á árlegum hausttónleikum Ferðafélags Fljótsdalshéraðs og Ferðamálahópsins í Loðmundarfirði. Í ár verða það félagarnir Eyjólfur Kristjánsson og Jón Ólafsson sem ætla að heiðra okkur með nærveru sinni.
Saman munu þeir félagar vera með "Af fingrum fram" tónleika í Loðmundarfirði, þar sem þeir blanda saman tónlist og svo léttu spjalli um viðburðarríkan feril Eyjólfs og allt annað sem þeim dettur í hug. Þessa menn þarf ekki að kynna fyrir neinum, enda með ástsælustu tónlistarmönnum okkar Íslendinga síðari ár.

Eins og áður verður aðgangseyrir á tónleikana valfrjáls og vonum við að sjálfsögðu að það verði mikið fjölmenni í firðinum líkt og undanfarin ár. Það er um að gera að panta gistingu í skála sem fyrst og svo verður að sjálfsögðu nægt pláss á tjaldsvæðinu við Loðmundarfjarðarskála. Nánari dagskrá annara viðburða verður tilkynnt þegar nær dregur.

Sjáumst í Loðmundarfirði í lok ágúst

Ferðafélag Fljótsdalshéraðs
og Ferðamálahópur Borgarfjarðar eystri.