Góð veiði á Borgarfirði í september

Í september er búið að landa 322 tonnum af fiski í Borgarfjarðarhöfn, af 18 bátum. Sjö af þessum bátum koma frá norðurlandi og hafa gert út frá Borgarfirði í tæpar 3 vikur og svo villtist inn bátur frá Fáskrúðsfirði einn dag. Allir þessir aðkomubátar veiða á handfæri nema einn sem skipti yfir í línutrekt.   Hver einn og einasti fiskur hefur farið í gegnum Fiskverkun Kalla Sveins þar sem hann er flokkaður og ísaður ofan í kör sem eru svo send beint á markað. Met var slegið í fiskverkuninni þegar þar fóru í gegn 33 tonn á einum degi en meðaltalið er 14,6 tonn á dag.


Á seinasta kvótaári var landað 723 tonnum af fiski í Borgarfjarðarhöfn svo nú er búið að veiða hátt í helmingin af því á einum mánuði og í september í fyrra var landað 115 tonnum.