Gömul mynd frá Eyrinni

Bakkaeyrin fyrir þó nokkru síðan
Bakkaeyrin fyrir þó nokkru síðan
Síðunni barst bréf frá Guðgeiri Ingvarssyni frá Desjarmýri sem innihélt gamla og skemmtilega mynd frá Bakkaeyrinni og texta með henni. Við eigum Guðgeiri mikið að þakka en hann hefur verið manna ötulastur að senda inn efni á síðuna. Hér má lesa bréfið frá Guðgeiri og sjá þessa skemmtilegu mynd.
Hingað á safnið barst nýlega gömul ljósmynd af Bakkaeyrinni og byggðinni
sunnan Bakkaár. Myndin mun vera komin frá ljósmyndastofu Eyjólfs Jónssonar á
Seyðisfirði.



Myndin er tekinn rétt utan við Bakkaána. Í forgrunni er verslunarhúsið á Bakkaeyrinni og benda má á að þarna er það væntanlega með nokkuð upprunalegu útliti áður en gluggunum var breytt.

Lengst til hægri sér í Gamla skólann, ef mér skjátlast ekki, og Bjarg ber yfir verslunarhúsið. Hægra megin við Bjarg má greina staur eða einhverja súlu, sem giska má á að sé símastaur eða mastur.

Ef þetta er rétt er myndin tekinn eftir að síminn kom til Borgarfjarðar. Í sögu Borgarfjarðar eystra segir um þetta bls. 201: „Árið 1919 var sími lagður til Borgarfjarðar og var byggð símaafgreiðsla við húsið Bjarg.“

Eyjólfur Jónsson rak ljósmyndastofu á Seyðisfirði frá 1893 til dauðadags 1944. Myndin er því að öllum líkindum tekin einhvern tíman á árabilinu 1919-1944 og ekki ólíklegt að hún sé frá því fyrir seinni heimsstyrjöld. Eins og sjá má á myndinni er frystihúsið ekki komið og  engin hafnargarður,
enda bryggjan ekki steypt fyrr en sumarið 1945 og frystihúsið nokkru síðar eða 1949. Ég þekki ekki öll húsin á myndinni með vissu, en tel að þar megi sjá auk þeirra sem áður voru nefnd Læknishúsið (síðar Sæból),Odda, Borg, Klöpp, Tungu, Jörfa og fleiri hús. Eldri Borgfirðingar geta leiðrétt ef
einherjar villur eru í þessari upptalningu og ef til vil bætt einhverju við. Gaman væri ef hægt væri að staðsetja myndina nánar í tíma og fá staðfest hvaða hús má sjá á myndinni.

Guðgeir Ingvarsson frá Desjarmýri.

Heimildir sem stuðst var við:
Magnús Helgason o. fl. 1995. Saga Borgarfjarðar eystra.
Inga Lára Baldvinsdóttir, 2001. Ljósmyndarar á Íslandi 1845-1945.