Guðný Óla á heimaslóðum 5.-6. nóv 2011

Fleir myndir úr ferðinni má sjá neðar í greininni
Fleir myndir úr ferðinni má sjá neðar í greininni
Í dag var haustveður eins og það gerist best á Borgarfirði. Hiti um 10°, sunnan vindur og heiðskýrt. Ég fékk með göngutúr árla morguns – með myndavélina, að sjálfsögðu og reyndi að festa fegurðina á filmu. Fyrst heillaði himininn mig, en morgunroðinn var undurfagur á suðurhimninum. Ég gekk upp að Bakkamel eins og ég geri gjarnan í heimsóknum mínum í Fjörðinn fagra, til að vitja leiða foreldra minna og annarra forfeðra. Þar sá ég að verið er að betrumbæta kirkjugarðinn, gera fallega steinhleðslu í staðinn fyrir gamla kirkjugarðsvegginn. Þau Bryndís Snjólfs og Bjössi á Bakka ásamt hleðslumanni úr Skagafirði eru að vinna við hleðsluna. Mér var tjáð að þessi hleðsla eigi sér enga líka á Íslandi, en hún er gerð úr litríku líparíti og hlakka ég til að sjá hana fullgerða næst þegar ég kem heim, mér finnst mikil prýði að þessum nýja kirkjugarðsvegg. 

Á leið minni út á Bakka hitti ég Kjalla, sem var hress og kátur að vanda. Það er gaman að sjá hvernig byggðin á Bökkunum þéttist, tvö ný hús risin auk Hótels Álfheima sem stækkaði í sumar. Í Bakkafjörunni var Bjössi að sækja möl í hleðsluvinnuna í kirkjugarðinum og ég sá einnig gröfu í vinnu neðan við nýja hótelið í gamla frystihúsinu, Hótel Blábjörg. Þegar ég gáði betur að, sá ég að verið er að hlaða þar grjótgarð til að verjast briminu sem oft mokar þaranum upp í fjöruna. Gott mál.  Ég rölti niður byggð, smellti myndum af húsunum, hugsaði til þeirra sem eru í mínum sporum og gleðjast alltaf við að sjá mynd af húsinu sínu á vefnum, athvarfinu þeirra sem bíður sumargestanna.
Næst lá leið mín niður að Bræðslu, ég fór niður í Bræðsluklappir og smellti þar mynd af þorpinu, síðan skoðaði ég nýju grjóthleðsluna sem komin er neðan við Skúrana. Þessi hleðsla er hin fallegasta að mínu mati og kemur til með að verja bakkann fyrir ágangi brimsins – Sílapollurinn er enn á sínum stað og auðvelt aðgengi að honum ef farið er í fjöruna frá Svínalæknum, en það væri samt gaman að sjá tröppur niður í fjöruna frá Larshúsinu – sem reyndar er endanlega horfið!

Ég rölti áfram niður Björg, kíkti í Froðuvoginn, Gusuna, Bolabásinn og niður í Kerlingafjöru. Í Hraununum er grjótnáma, þar taka þeir grjótið í brimvarnargarðana og var allt á fullu þar. Að vanda fór ég niður í Ós, guðaði á glugga, en sá enga hreyfingu innan dyra. Álfaborgin heillaði mig á heimleiðinni og notfærði ég mér það og labbaði uppá hana og tók nokkrar myndir. Á heimleiðinni sá ég að einhver var að dytta að þakinu á Bræðslunni, líklega Magnús í Höfn.

Nú var sólin sest og farið að kólna verulega og tími til kominn að ylja sér við Sóló heima í Gamla Jörfa.
Mér finnst dýrmætt að eiga aðgengi að þessari paradís sem mér finnst Borgarfjörðurinn vera, ekki spillir fyrir þegar veðrið leikur við hvurn sinn fingur eins og í dag, þótt kominn sé vetur.

„Í litlu þorpi við fagran fjörð
Er fegursti staður hér á jörð,
Þar Svartfellsins tindur í suðri rís,
Það er sannkölluð paradís.“
(Halldóra Guðlaugsd.)
       
 
Sjá myndir í ferðinni

Kveðja úr firðinum fagra,
Guðný S. Ólafsdóttir, Gamla Jörfa.