Gyrðir Elíasson og bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs

Gyrðir Elíasson
Gyrðir Elíasson
Borgfirskir listamenn eru svo sannarlega að gera það gott þessa dagana og þar ber nú sennilega hæst viðurkenningin sem Gyrðir Elíasson fékk í gærkvöldi hér í Kaupmannahöfn þar sem hann fékk afhent bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs við hátíðlega athöfn í Konunglega danska tónlistarskólanum.

Það var forseti þings Norðurlandaráðs, Bertil Haarder, sem afhenti verðlaunin. Gyrðir fær bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir bók sína Milli trjánna en við sömu athöfn eru afhent verðlaun ráðsins fyrir umhverfismál, tónlist og kvikmyndir.

Gyrðir segir að verðlaunin hafi komið sér algerlega í opnu skjöldu þegar tilkynnt var um þau í vor. „Tilnefning var í sjálfu sér mér nægileg, ég vissi að þarna voru margir góðir höfundar og átti von á einhverjum allt, allt öðrum. Og þetta hefði auðvitað alveg eins geta verið Ísak Harðarson af Íslands hálfu, hann hefði verið mjög vel að því kominn,“ sagði hann í samtali við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur fréttamann í Kaupmannahöfn í dag.

Að vonum telur Gyrðir að verðlaunin eigi eftir að skipta töluverðu máli fyrir sig. „Fyrir utan náttúrlega þennan heiður og viðurkenningu sem fylgir þessu þá breytir þetta töluvert miklu fyrir mig persónulega því að mínar bækur hafa til dæmis ekkert verið þýddar í Skandinavíu í fimmtán ár. Strax með þessu þá breytist það greinilega býsna hratt og jafnvel út fyrir Norðurlöndin því þessi verðlaun virðast hafa orðspor töluvert lengra út fyrir þau en ég áttaði mig á."

Á vef ríkisútvarpsins er hægt að horfa á skemmtilegan þátt sem Egill Helgason gerði nú í sumar um Gyrði og listsköpun hans. Sérstaklega er gaman að heyra lýsingar hans frá Borgarfirði þegar hann var ungur maður.

Fréttasíða óskar Gyrði, ættingjum og borgfirðingum öllum til hamingju með verðlaunin

Þetta er Hafþór Snjólfur, sem ritar, frá Kaupmannahöfn fyrir Borgarfjörð eystri.is