Hallveig Karlsdóttir á Bikarmóti í Fitness

Hallveig Karlsdóttir
Hallveig Karlsdóttir
Fitness Bikarmóti IFBB fór fram um helgina í troðfullu Háskólabíói og þar áttum við Borgfirðingar glæsilegan þátttakanda sem var hún Hallveig Karlsdóttir, (Sveinssonar) og náði hún stórglæsilegum árangri á mótinu en hún hafnaði í 6. sæti í fitness kvenna á hennar öðru móti.
Hallveig er nokkuð sátt við árangurinn og er í sínu besta formi að hennar sögn. Hún er búsett heima í vetur og hefur æft af kappi fyrir mótið ekki ósvipað og Rocky Balboa fyrir bardagana í bíómyndunum frægu, en hún hefur einfaldlega útbúið sína eigin rækt með því sem hún hefur fundið innan fjarðar.

Aðstaðan samanstendur af einföldum hallandi bekk, nokkrum lóðum og teygjum, og að sjálfsögðu upphífingarstöng sem er á ganginum hjá Helgu Björg og Kára, en Steinunn dóttir þeirra hefur verið verið dyggur stuðningsaðili Hallveigar, og m.a. gengið með henni á flest fjöll fjarðarins samkvæmt fésbókarsíðu Hallveigar.
"Mér fannst aðeins gaman að breyta til og undirbúa mót með þessum hætti og það kenndi mér mjög margt og hef ég lært það að þú getur gert allt sem þú ætlar þér þó svo að þú hafir ekki allt til alls og aðstaðan sé kanski ekki sú besta. Þú verður bara að vera aðeins nægjusamur og ánægður með það sem þú hefur. Stefnan er tekin á Norðurlandamót næsta haust, þannig að nú heldur maður bara áfram að bæta það sem þarf að bæta og það verður bara gaman :) Hlakka bara til!"

Borgarfjarðarsíðan óskar Hallveigu hjartanlega til hamingju með árangurinn og við fylgjumst spennt með framtíðinni í þessu sporti.

Hallveig kemur mjög sterk inn í kjörið sem íþróttamaður Borgarfjarðar 2012.