Höfðingleg gjöf til skólans

Þrúða afhendir Helgu gjafabréfið
Þrúða afhendir Helgu gjafabréfið
Það sannaðist best í haust hvað það er dýrmætt að eiga góða velunnara

þegar skólanum var færð að gjöf ein miljón króna frá hjónunum Jónbjörgu Eyjólfsdóttur og Sigurði Óskari Pálssyni. Koma þá þessar ljóðlínur úr laginu "Á fornum slóðum" í hugann en textinn er einmitt eftir Jónbjörgu


 

 


Hér á ég spor og hér ég ann hverjum steini.
Mitt æskuvor hérna fagnandi leið.
Ég burtu fór en ætíð lifði í leyni,
hin ljúfa kennd til alls er heima mín beið.

Um Dyrfjallstind
er enn sem dansi á kveldi
blik af deyjandi eldi,
en að morgni sem musteri hann skín
í sólarglóð.
Ég mun í sál minni geyma
fegurð sumarsins heima
hér er bernskubyggð mín.

Dóttir þeirra, Sigþrúður Sigurðardóttir, færði okkur á setningu skólans gjafabréf þessu til staðfestingar.  Þau heiðurshjón bjuggu á Skriðubóli hér á Borgarfirði og var Sigurður kennari og skólastjóri við Grunnskólann frá 1954 - 1971. Núna búa þau á Akureyri.  Jónbjörg og Sigurður sem bæði eru orðin áttræð, Sigurður í fyrra en Jónbjörg í sumar,  afþökkuðu afmælisgjafir sér til handa en báðu vini og vandamenn að gefa fé til skólans. Við þá upphæð bættu þau síðan sjálf mjög rausnarlega og erum við þeim innilega þakklát fyrir. Þetta er mikið fé fyrir lítinn skóla og borgfirsk ungmenni hér eiga eftir að njóta þess í skólastarfinu á komandi árum.