Mold - Leiksýning á Borgarfirði

Síðastliðinn föstudag var haldinn hér á Borgarfirði fundur í starfshópnum Austfirzk eining. Var eftirfarandi fært til bókar af fundarritara, Birni Hafþóri Guðmundssyni. Áður en haldið var heim fór hópurinn á leiksýningu Grunnskóla Borgarfjarðarhrepps, en hún er sett upp sem verkefni í „Þjóðleik“, auk þess að vera hluti af árshátíð skólans vorið 2011.

Sýnt var leikverkið MOLD af leikhópnum „Þrastarungarnir“. Verkið er samið af Jóni Atla Jónassyni og því leikstýrt af heimamanninum, Þresti Fannari Árnasyni (eins og nafn leikhópsins gefur til kynna).

Var það mat allra viðstaddra að hér væri um mjög áhugaverða og vel upp byggða leiksýningu að ræða og var öllum, sem að henni komu fagnað í leikslok. Athygli vakti góð framsögn leikenda og fágaður leikur. Sviðsmynd var einföld, en áhrifarík og lýsing og umgjörð öll eins og í höndum fagmanna.

Hluti af upplifun við sýninguna var anddyrið í Fjarðarborg, sem  skapaði strax sterka tilvísun í verkið með logandi kertum og reykelsisilm. Ekki skemmdi heldur „swingið“ frá dögum Victors Silvester og hljómsveitar í hinu forna útvarpsviðtæki í „betri stofunni“, en það virtist vera stillt á „Gömlu Gufuna“, svo sem vera bar. (Innskot BHG: Reyndar var tónlistin íslenzk, en Victor gamli Silvester stendur samt ætíð fyrir sínu).

Þess má geta að miðvikudaginn 6. apríl kl 18:00 stundvíslega verður aukasýning í Fjarðarborg og er það síðasta sýning fyrir Þjóðleikshátíðina sem haldin verður á Egilsstöðum um næstu helgi. Sýna krakkarnir í Sláturhúsinu á föstudag kl 19.00 og laugardag kl 14:00.