Opnun leikskóladeildar í Grunnskólanum

Kastalinn
Kastalinn
Leikskólinn Glaumbær er nú loksins fluttur í húsnæði grunnskólans. í byrjun desember var hafist handa við að innrétta eina kennslustofuna sem leikskóladeild. Bjössi Skúla og Bryndís undir styrkri handleiðslu Kjalla unnu þar baki brotnu við að smíða, breyta og laga. Bryndís hannaði kastala inn í stofuna sem vakti að vonum mikla ánægju hjá leikskólabörnunum. Strákarnir ( Bjössi, Kjalli og Bjössi á Bakka ) eru búnir að girða af lóð milli skólans og Fjarðarborgar og Bryndís mun svo hanna umhverfi hennar þegar snjóa leysir. Þetta er kærkomin breyting bæði fyrir börn leikskólans sem komast nú í meiri tengsl við skólann en ekki síður fyrir starfsmann leikskólans en það getur verið svolítið einmanalegt að starfa svona einn allan daginn þó börnin séu prýðilegur félagsskapur. 
Mánudaginn 19. desember var svo opnunarhátíð á Leikskóladeildinni þar sem gestum og gangandi var boðið í kakó og rjómapönnukökur. Dagurinn byrjaði niður á "gamla" leikskóla þar sem börn og starfsfólk kveiktu á kertum fyrir utan og kvöddu gamla húsnæðið. Örkuðu síðan upp í skóla þar sem nýja deildin tók á móti þeim. Þau höfðu ekkert fengið að sjá inn í stofuna áður svo undrunin og gleðin var mikil þegar inn var komið. Hérna getið þið séð myndir frá opnunardeginum.