Skemmtilegustu gönguleiðir á Íslandi að mati hlustenda Rásar 2.

Stórurð við Dyrfjöllin bakdyramegin
Stórurð við Dyrfjöllin bakdyramegin
Borgarfjörður og nágrenni var kosið með skemmtilegustu gönguleiðir á Íslandi í þættinum Bergson og Blöndal um helgina. Í þættinum átti ég, Hafþór Snjólfur að vera í viðtali vegna Borgarfjarðarsíðunnar en eins og margir hafa eflaust ekki tekið eftir þá náðist ekki í mig. Kannski bara rétt að segja frá ástæðum þess. Ég var að spila á Tónleikum á Höfn um nóttina til 03:30, síminn settur á "Silent" áður en farið var á svið og það einfaldlega gleymdist að setja hljóðið á aftur og ég svaf værum blundi eins og bakkamanna er siður fram að hádegi. Lítið við því að gera núna, en það varpar engum skugga á það hversu fallegt göngusvæði við eigum hérna í nágrenninu.

Einhverjir ágætir Héraðsmenn hafa nú verið að hneykslast á því að Stórurð sé flokkuð með Borgarfirði þar sem hún sé réttilega á Fljótsdalshéraði. En ég hef alltaf litið þannig á að náttúrufegurð og stök í náttúrunni lúti engum stjórnsýslumörkum og því skipti þau engu máli þegar verið er að ræða um þetta. Staðreyndin er sú að Stórurð liggur næst Borgarfirði, og ef þú vilt ganga frá einhverju byggðarlagi þangað þá er það bara hægt héðan, og því verður bara ekkert breytt auk þess höfum við verði ötulastir allra að kynna þetta einstaka náttúrufyrirbrigði og eigum alveg rétt á að státa okkur af Urðinni.