Skólahald í blíðviðri

Þau hafa verið heppin með veður krakkarnir í Grunnskólanum þessa fyrstu daga skólaársins. Þessa vikuna fara þau daglega á námskeið hjá Ásgrími Inga í sundlauginni á Egilsstöðum. Aðstaða í lauginni er öll til fyrirmyndar og ljúft að taka sundtökin í lauginni. Skólinn fær einnig leyfi til að nýta Félagsmiðstöðina Ný-ung í hléi á milli æfinga, til að nemendur megi matast og hvíla sig. Ekki nóg með að þau séu mætt til leiks í lauginni því á mánudag sóttu nemendur sér bækur á Héraðsbókasafnið en í vetur ætla þau að lesa fjölbreyttar bækur sér til ánægju og yndisauka.  
Í næstu viku förum við í göngu í Loðmundarfjörð (frá Húsavík) þar sem líka verða unnin skemmtileg verkefni. Gist verður í skálanum með kvöldvöku og tilheyrandi gleði. Fimmtudaginn höfum við merkt sem grænfánadag því þá ætlum við að stilla okkur inn á umhverfisvernd í verki í öllu því skólastarfi sem framundan er m.a. með því að fara yfir grænfánamarkmið okkar.

Við þökkum Félagsmiðstöðinni Ný-ung og Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs kærlega fyrir að veita okkur endurgjaldslaust afnot af aðstöðu, annars vegar í félagsmiðstöðinni á Egilsstöðum og hins vegar í fína skálanum í Lommanum.