Skólaslit og útskrift

10. bekkingar
10. bekkingar
Í gær voru skólaslit og útskrift hjá okkurí grunn- og leikskóla Borgarfjarðar eystra.   Við fallega og hátíðlega athöfn útskrifuðust 3 nemendur út 10. bekk og 2 nemendur úr leikskólanum. Í ræðu sinni fór Svandís skólastjóri yfir skólaárið og minntist á nokkur af þeim fjölmörgu góðu verkefnum sem við höfum unnið að í vetur. Allir nemendur fengu viðurkenningu fyrir góða frammistöðu í lestri og lesskilningi í tengslum við nýju læsisstefnuna okkar og samningin um Bættan námsárangur. Viðurkenning þessi var í formi notaðra bóka sem við fengum í Rauða krossinum og í endurvinnslunni á Heiðinni. 
Síðan talaði Svandís til 10. bekkingana þar sem hún líkti menntun þeirra og jafnvel þeim sjálfum við eikartrésstofninn sem vex og dafnar, fellir laufið og fær síðan nýtt, stendur af sér óblítt veðurfar en missir aldrei tengsl sín við ræturnar. Hún óskaði þeim síðan fyrir hönd starfsfólksins velfarnaðar í lífinu og þakkaði þeim samfylgdina.

Skólaráðsfundur verður 13. júní kl. 17:00. Foreldrum er boðið að taka þátt. 

Skólasetning verður 18. ágúst. Nánar auglýst síðar.

Leikskólinn verður opinn út júnímánuð. Við hefjum svo aftur störf 3. ágúst kl. 8:45.