Almyrkvi sjáanlegur frá Borgarfirði eftir slétt 2 ár.

Þetta er kannski ekki hefðbundin Borgarfjarðarfrétt en áhugaverð þó fyrir suma. Eftir nákvæmlega 2 ár og einn dag mun sjást fátíður stjarnfræðilegur atburður frá Borgarfirði og allri austurströnd Íslands en það er nær algjör almyrkvi sólu. Það sem gerir þennan sólmyrkva sérstæðan er að hann fer nær alfarið yfir sjó. Bestu staðirnir til þess að upplifa þennan sólmyrkva á hnettinum er í Færeyjum og á Svalbarða, þar sem sólin hverfur alveg bak við tunglið. Hjá okkur mun það skyggja á 99% af sólinni sem gerir þetta einn besta staðinn á Íslandi til að upplifa þennan einstæða atburð. Samkvæmt færeyskum fréttamiðlum er gistipláss nú þegar að verða uppbókað á þessum tíma og sömu sögu er að segja frá Svalbarða.

Það ættu því að felast nokkur sóknarfæri í ferðaþjónustunni hjá okkur í tengslum við þennan atburð, og væri tilvalið að skella upp einhverskonar fögnuði eða hátíð á þessum tíma, en það er víst stór hópur fólkst sem ferðast heimshornanna á milli til þess að upplifa sólmyrkva, sama hvar hann er.

Næstu sól- og deildarmyrkvar sem verða sjáanlegir á Borgarfirði verða árin 2026, 2048, 2119, 2151, 2173 og 2196, en engin þeirra eins tilkomumikill og þessi sem verður eftir 2 ár.

Hér má sjá almyrkva á sólu sjáanlega frá jörðinni til ársins 2035.Nánar um sólmyrkva á Vísindavef Háskóla Íslands