Tónleikadagskrá sumarsins í Fjarðarborg tilkynnt

Strákarnir í Fjarðarborg eru stórhuga í sumar og ætla að bjóða upp á frábæra tónleikadagskrá allar helgar í júní og júlí, og auðvitað dagana fyrir Bræðslu eins og undanfarin ár. Landsþekktir listamenn koma í heimsókn og okkur hérna heima gefst tækifæri á að kaupa miða á þetta allt saman og tryggja okkur þannig miða á alla viðburðina, en oft hefur verið uppselt á þessa viðburði og þá sérstaklega í Bræðsluvikunni. Takið vel eftir!!! Þetta er langbesta leiðin og eina örugga leiðin til þess að tryggja sér miða á allt það sem mun eiga sér stað í Fjarðarborg í sumar og það á góðum afslætti. Hægt er að koma við í Fjarðarborg og panta sumarpassa, senda skilaboð á facebook eða bara hringja í s: 472-9920

Um næstu helgi kemur í Fjaðrarborg snillingurinn Pétur Ben í heimsókn til okkar. Pétur vakti fyrst athygli fyrir samstarf sitt við Mugison en hann m.a. samdi og útsetti lög á plötu hans Mugimama Is This Monkeymusic?. Pétur hefur komið víða við á sínum ferli en hann samdi m.a. tónlistina í kvikmyndum Ragnars Bragasonar, Börn og Foreldrar og hefur einnig samið og útsett tónlist fyrir leikhús, m.a. annars í samstarfi við Nick Cave.

Fyrsta platan hans, Wine For My Weakness kom út árið 2006 og þykir sérlega vel heppnuð frumraun enda tók hann dágóðan tíma í að vinna hana. Við lofum frábærum tónleikum með þessum meistara.

(Fyrir þá sem eru að velta fyrir sér HM í fótbolta, þá sýnum við seinni hálfleikinn í leik Englands og Ítalíu á flatskjá eftir tónleikana).



Svo er hægt að sjá dagskrá sumarsins hérna fyrir neðan, en strákarnir í Fjarðarborg eru einstaklega stoltir af því að geta boðið upp á svona vandaða tónleikadagskrá þetta sumarið, og hver veit nema óvæntir gestir eigi eftir að bætast við listann.