Vorferð á Mývatn

Hópurinn í Kirkjudyrunum
Hópurinn í Kirkjudyrunum
Nemendur grunnskólans fóru í vorferð til Mývatns á dögunum. Lagt var af stað í þokkalegu veðri frá Borgarfirði og haldið sem leið lá í Hrossaborgir þar sem nesti var snætt og fætur liðkaðir með því að ganga hringinn í borginni. Eftir það var öllum troðið í bílana og brunað á Fuglasafnið á Mývatni þar sem Þorgeir nokkur tók á móti okkur og leiddi okkur um safnið. Þetta er stórkostlegt safn og höfðu börnin okkar mjög gaman af því sem þar bar fyrir augu, enda vön því að veita fuglum athygli hér heima og þekkja ótrúlega margar fuglategundir.
Nú voru allir orðnir gríðarlega svangir svo við drifum okkur á pitsustaðinn Daddi's og þar var tekið hraustlega til matar síns. Við vorum einstaklega heppin með veður á Mývatni þennan dag svo þegar búið var að troða belginn út af pitsu veltum við okkur út á pallinn við veitingastaðinn og lágum þar á meltunni í góða stund. En nú var okkur ekki til setunnar boðið því næst á dagskrá var að ganga stóra hringinn í Dimmuborgum og skoða Kirkjuna margfrægu. Þessi gönguferð féll vel í kramið hjá göngugörpunum okkar og var þar magt sem fyrir augu bar hvað varðar náttúrufyrirbæri og plöntu- og dýralíf. Við hefðum getað dvalið í Dimmuborgum allan daginn en kýrnar í Vogafjósinu biðu okkar svo við hentumst af stað þangað. Þar heimsóttum við fjósið og voru kálfarnir vinsælastir ásamt nokkrum kvígum sem báru nöfn nemenda s.s. Sara og Sólbjört. Við fengum einnig að smakka ekta mjólk og hverabakað rúgbrauð með reyktum silungi. Þetta bragðaðist allt mjög vel. Nú lá beinast við að fara og skola af sér fjósalyktina í sundlauginni svo þangað hélt allur hópurinn. Þar var buslað og ærslast þangað til hungrið fór að segja aftur til sín. Þá var haldið í sjoppuna þar sem nemendur keyptu sér sikkerí og annað "hollt og gott" ! Nú var liðið búið að fá nóg í bili svo við héldum heim á leið eftir velheppnaða ferð. Mývetningar takk fyrir okkur.Hér eru fleiri myndir úr ferðinni.